Neytendastofu hefur borist tilkynning frá BL ehf. að innkalla þurfi 1.157 bifreiðar af gerðinni Hyundai Tucson. Um er að ræða árgerðir framleiddar árin 2015-20. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendastofu.

Í tilkynningunni segir að ástæða innköllunarinnar sé sú að hætta sé á skammhlaupi í svokallaðri HECU tölvu. Sú hætta geti leitt til sjálfsíkveikju og þar með eldi í vélarrými bifreiðarinnar. Ekki kemur fram í innkölluninni hvernig eða hvort unnt sé að gera við umræddan galla eða hve langan tíma það kunni að taka.

„Viðkomandi bifreiðareigendum verður tilkynnt um innköllunina bréfleiðis. Neytendastofa hvetur bifreiðaeigendur til að fylgjast vel með hvort að verið sé að innkalla þeirra bifreiðar og hafa samband við umboðið séu þeir í vafa,“ segir í tilkynningunni.