Farþegum í áætlunarflugi Icelandair fjölgaði um 11,6% í desember 2004. Þeir voru rúm 78 þúsund, en tæp 70 þúsund í desember í 2003. Sætanýting var 1,6 prósentustigum betri í desember 2004 en árið á undan. Framboðið var 9,2% meira en í desember 2003, en seldir sætiskílómetrar voru 11,9% fleiri.

Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fjölgaði um 9,3% í desember. Á árinu 2004 fjölgaði farþegum innanlands um 13,7% miðað við 2003.

Á árinu 2004 voru farþegar Icelandair rúmlega 1,3 milljónir, eða 17,8% fleiri en á árinu 2003. Fjölgunin nemur um 200 þúsund farþegum. Sætanýting félagsins var 74,5% og jókst um 5,3 prósentustig milli ára, - framboð var 12,5% meira en á síðasta ári, en salan jókst um 21,2% milli ára.

Flugleiðir-Frakt fluttu 16,6% fleiri tonn í desember en í desember 2004 og fluttu 26,4% fleiri tonn á árinu 2004 en á árinu á undan.

Í desember 2004 voru fartímar ("block-hours", þ.e. sá tími sem flugvél er í notkun, frá því hún fer frá brottfararhliði og þar til hún stöðvar aftur við brottfararhlið) hjá Loftleiðum-Icelandic 22,2% fleiri en í sama mánuði 2003. Á árinu 2004 voru fartímar hjá Loftleiðum-Icelandic 62,2% fleiri en á árinu 2003.

"Þessi mikla fjölgun farþega og aukin sætanýting Icelandair á árinu 2004 er mjög góður árangur og nauðsynlegt mótvægi við almennt lækkandi verð flugfargjalda og miklar eldsneytishækkanir á árinu. Hið sama gildir um árangur Flugfélags Íslands, Flugleiða-Fraktar og Loftleiða. Þar næst fram aukning og bætt nýting í harðri samkeppni," segir
Sigurður Helgason forstjóri Flugleiða í frétt frá Flugleiðum: