*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 10. febrúar 2006 15:28

117% aukning hagnaðar hjá SPH

Ritstjórn

Hagnaður SPH árið 2005 af rekstri sjóðsins nam 848 milljónum króna fyrir skatta samanborið við 390 milljónir króna árið 2004, en það er aukning um 117,4% frá árinu 2004. Í tilkynningu félagsins kemur fram að þegar tekið hefur verið tillit til skatta var hagnaðurinn 704 milljónir króna, sem er aukning um 120,4% miðað við árið 2004.

Ársreikningurinn er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og síðasta ár.

Vaxtatekjur námu 3.929 milljónum króna, jukust um 36,5% milli ára, en vaxtagjöld námu 2.571 milljón króna, sem er 52,6% aukning. Hreinar vaxtatekjur námu því 1.358 milljónum króna, en voru 1.195 milljónir króna á árinu 2004, og var aukningin því 13,7% á milli ára. Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af heildarfjármagni, er nú 3,2 af heildarfjármagni í samanburði við 3,1% árið áður.

Markaðsviðskipti sparisjóðsins gengu vel, enda markaðir hagstæðir á tímabilinu. Gengishagnaður af innlendum og erlendum veltuverðbréfum nam 579 milljónum króna, samanborið við 576 milljónir króna á árinu 2004. Alls námu aðrar tekjur sparisjóðsins 1.273 milljónum króna, samanborið við 1.154 milljónir króna árið 2004 sem er aukning um 10,4%.

Rekstrargjöld námu 1.623 milljónum króna samanborið við 1.397,1 milljón króna á árinu 2004, sem er 16,2% aukning á milli ára. Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum á tímabilinu var 61,7% og hækkaði úr 58,8% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu 909 milljónum króna en voru 700 milljónir króna á árinu 2004, jukust þau um 29,8% milli ára. Annar rekstrarkostnaður nam 592 milljónum króna en var 612 milljónir króna á árinu 2004, lækkaði um 3,3 á milli ára.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 160 milljónum króna, en á árinu 2004 nam framlagið 561 milljón króna. Afskriftareikningur útlána nam 486 milljónum króna í árslok 2005 sem svarar til 1,6% af útlánum og veittum ábyrgðum, en hlutfallið í árslok 2004 var 2,0%. Framlag í afskriftareikning útlána endurspeglar þó ekki endilega töpuð útlán, heldur er um að ræða fjárhæð sem lögð er til hliðar til að mæta hugsanlegum útlánatöpum.