Í ágústmánuði voru fluttar út vörur fyrir 47,2 milljarða króna og inn fyrir 42,8 milljarða króna fob. Vöruskiptin í ágúst, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um tæpa 4,5 milljarða króna. Í ágúst 2013 voru vöruskiptin hagstæð um 6,3 milljarða króna á gengi hvors árs. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni .

Fyrstu átta mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir 363,7 milljarða króna en inn fyrir 375,4 milljarða króna fob. Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 11,7 milljarða króna, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 23,5 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 35,1 milljarði króna lakari en á sama tíma árið áður.