Hagnaður KB banka eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins nam 11.705 milljónum króna, jókst um 130,5% miðað við sama tímabil 2003. Hagnaður eftir skatta á þriðja ársfjórðungi nam 5.547 m.kr., jókst um 175,4% milli ára. Hagnaður á hlut nam 25,8 krónum á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 12,5 krónur á sama tímabili ársins 2003.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 32,5%, en var 21,2% á fyrstu níu mánuðum ársins 2003. Hreinar rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 34.414 m.kr., jukust um 54,3% miðað við sama tímabil 2003.

Rekstrarkostnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 16.464 m.kr., jókst um 22,7% milli ára og kostnaðarhlutfall lækkar úr 60,2% í 47,8%.

Heildareignir námu 1.522 milljörðum króna í lok þriðja ársfjórðungs 2004, jukust um 172,4% frá áramótum.

Gengið endanlega frá kaupunum á danska bankanum FIH sem kemur inn í samstæðureikninga Kaupþings Búnaðarbanka hf. (KB banka) frá og með 1. júlí 2004.

Gefnir út 110.137.128 hlutir og seldir í forgangsréttarútboði í ágúst. Söluvirði hlutanna var 39,6 ma.kr. Tilgangur sölunnar var fjármögnun kaupanna á FIH.

Gefnir út 110.000.000 hlutir og seldir til fagfjárfesta í október. Söluvirði hlutanna var 52,8 ma.kr. Tilgangur sölunnar var styrking eiginfjárgrunns bankans.

"Þessi ársfjórðungur var að mörgu leyti jákvæður fyrir KB banka. Gengið var frá kaupunum á FIH og marka þau þáttaskil. Áhrif kaupanna sjást best í stærð efnahagsreiknings bankans, en hann hefur rúmlega tvöfaldast frá síðasta uppgjöri, farið úr 649 milljörðum króna í 1.522. Þá var afar góð þátttaka í forgangsréttarútboði bankans í ágúst í tengslum við kaupin á FIH en alls nýttu rúmlega 96% hluthafa forgangsrétt sinn. Ennfremur tókst sala nýs hlutafjár til fagfjárfesta um miðjan október. Uppgjörið nú er vel viðunandi. Bankinn hefur aldrei skilað meiri hagnaði en nú á þriðja ársfjórðungi. Tekjur af rekstri FIH, stærsta dótturfélagi bankans, koma nú í fyrsta sinn inn í uppgjör bankans, en rekstur FIH gengur vel," sagði Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka um uppgjörið.

"Rekstur bankans gengur vel og er arðsemi eigin fjár á fyrstu níu mánuðum ársins 32,5% sem er vel yfir yfirlýstum markmiðum bankans. Kostnaðarhlutfall heldur áfram að lækka, er nú annan ársfjórðunginn í röð undir 50%. Sókn KB banka inn á íslenska húsnæðislánamarkaðinn með því að bjóða betri lánskjör en Íbúðalánasjóður, hefur farið mjög vel af stað. Við ætlum okkur væna sneið af þessum hluta íslenska fjármálamarkaðarins, sem hingað til hefur verið í höndum ríkisins, og fari svo fram sem horfir mun það takast fyrr en síðar," sagði Sólon R. Sigurðsson, forstjóri KB banka