Vísitalan neysluverðs miðuð við verðlag í apríl 2008 er 300,3 stig og hækkaði um 3,4% í fyrra mánuði. Það þýðir að vísitala neysluverðs hefur hækkað um 11,8% síðustu 12 mánuði.

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári en þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun 12 mánaða verðbólgu frá byrjun árs 2001.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 269,6 stig og hækkaði um 4,2% frá mars.

„Gengissig íslensku krónunnar undanfarið hefur skilað sér mjög hratt út í verðlagið og hækkaði verð á innfluttum vörum um 6,2% (vísitöluáhrif 2,1%),“ segir á vef Hagstofu.

Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 7,1% (1,14%). Þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 11,0% (0,77%) og á bensíni og olíum um 5,2% (0,24%).

Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 6,4% (0,77%), þar af hækkaði verð á mjólk og mjólkurvörum um 10,2% (0,20%).

„Mánaðarbreyting vísitölu neysluverðs hefur ekki verið meiri frá júlí 1988 en þá hækkaði hún um 3,5% og fyrir vísitöluna án húsnæðis frá janúar 1985 en þá hækkaði hún um 4,8%. Miðað við tólf mánaða breytingu vísitölunnar hefur verðbólgan ekki mælst meiri síðan í september 1990,“ segir á vef Hagstofu.