Já hefur lagt það til við Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) að símanúmerið 118 verði lagt niður. Fram kemur í tilkynningu frá Já að tillagan hafi verið lögð fram í ljósi þess að stofnunin mun ekki úthluta fleiri þriggja stafa símanúmerum. Tillaga Já felur jafnframt í sér að sú þjónusta sem veitt hefur verið í 118 verði veitt í símanúmerinu 1818 frá og með næsta ári. Þess  ber að geta að PFS sendi í dag frá sér svokallað samráðsskjal þar sem sambærileg sjónarmið koma fram.

„Við erum leiðandi fyrirtæki í upplýsingaþjónustu á Íslandi og við töldum eðlilegt að við hefðum frumkvæði að slíkri breytingu, sem ætti að gagnast öllum þeim sem starfa á okkar markaði,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, í tilkynningunni. „Vissulega er eftirsjá af símanúmerinu 118, en svo má ekki gleyma því að sú þjónusta sem þar er veitt, var eitt sinn í símanúmerinu 03. Við erum stolt af þeirri góðu þjónustu sem starfsfólk okkar veitir í 118 og sú þjónusta verður áfram með nákvæmlega sama hætti, bara í öðru símanúmeri, 1818.“