718 milljóna króna hagnaður varð á rekstri Dagsbrúnar hf. eftir tekjuskatt árið 2005 samanborið við 509 milljóna króna hagnað árið á undan segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 723 milljónum króna á árinu en var 622 milljónir króna árið 2004.

Mikil aukning varð á tekjum Dagsbrúnar árið 2005 en þær námu rúmlega 15 milljörðum króna, en það er 119% aukning milli ára. Þá nam handbært fé frá rekstri án fjármagnsliða 2.566 m.kr.

Framlegð samstæðunnar var 5.834 milljónir króna á árinu 2005 og jókst hún um 2.771 milljónir króna á milli ára.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 3.082 milljónir króna á árinu 2005. EBITDA var 1.922 milljónir króna árið á undan og er aukningin 60% milli ára. EBITDA hlutfall af heildarveltu nam 20,4% á árinu.

Eiginfjárstaða Dagsbrúnar hf. er sterk segir í tilkynningu félagsins. Eigið fé félagsins nam 8.770 milljónum króna í lok desember 2005 og hefur aukist um 1.207 milljónum króna frá því í lok árs 2004. Eiginfjárhlutfall er 38,4% í árslok 2005.

Veltufjárhlutfall var 0,91 í lok tímabilsins samanborið við 0,66 um áramótin á undan.