Tólf af fjórtán hópum sem skiluðu inn óbindandi tilboði í Símann hefur verið boðið upp í áframahaldandi dans í því augnamiði að þeir skili bindandi tilboð fyrir lok júlí.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar í dag kemur fram hvaða 14 aðilar skiluðu inn óbindandi tilboði í hlut ríkisins í Símanum, annað hvort allan hlutinn eða minni hluta með það í huga að mynda hóp fjárfesta á seinni stigum málsins. Hefur framkvæmdanefnd um einkavæðingu í samstarfi við Morgan Stanley nú farið yfir tilboðin.

Í því mati var horft til verðs, fjárhagslegs styrks og lýsingar á fjármögnun, reynslu af rekstri fyrirtækja, hugmynda og framtíðarsýn varðandi rekstur Símans. Eftir þetta mat hefur einkavæðingarnefndin ákveðið að bjóða 12 af þessum 14 hópum að afla sér frekari upplýsinga um Símann í því augnamiði að gera bindandi tilboð í júlílok. Þeir tveir fjárfestar sem ekki verður boðið áframhaldandi þátttaka eru Summit Partners Ltd. frá Bretlandi og Telesonique S.A. frá Sviss. Ekki kemur fram í tilkynningunni hvort athugasemdir hafi verið gerðar við eignatengsl annarra hópa.