Volvo, næst stærsti flutningabílaframleiðandi heims, birti í morgun uppgjör fyrir fyrsta fjórðung þessa árs. Hagnaður félagsins nam 4,2 milljörðum sænskra króna og var hagnaðaraukning milli ára um 12%.

Afkoman var töluvert yfir væntingum markaðsaðila en meðalspá Bloomberg hljóðaði uppá tæplega 3,9 milljarða sænskra króna hagnað.   Velta Volvo jókst einnig milli ára eða um 26% og lækkaði framlegð félagsins töluvert minna en búist var við og nam 8,5% á fjórðungnum.

Fjárfestar hafa tekið vel í uppgjör félagsins og hefur verð hlutabréfa Volvo hækkað um 4% í dag.

Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans.