Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 9. júní 2010 var bú Fasteignafélagsins Ártúns tekið til gjaldþrotaskipta. Frá þessu er greint í Lögbirtingablaðinu.

Skiptum á búinu var lokið 27. maí 2019 og námu lýstar kröfur rétt rúmum 12 milljörðum króna. Upp í lýstar veðkröfur komu 2.438.467.000 krónur, sem greiddust veðhöfum við sölu eigna og/eða að því marki sem þeir leystu til sín veðbundnar eignir. Ekki er tekin afstaða til almennra og eftirstæðra krafna þar sem ekkert kemur til úthlutunar upp í þær.

Dótturfélag BM Vallá, Smellinn hf., var einnig tekið til gjaldþrotaskipta og námu lýstar kröfur í búið um 656 milljónum króna.

Félagið BM Vallá var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl síðastliðnum. Rúmlega átján milljarða króna kröfum var lýst í þrotabúið en upp í þær fengust tæplega 4,3 milljarðar. Félagið var tekið til þrotaskipta í maí 2010 en skiptum á því lauk ekki fyrr en í apríl á þessu ári.