Landsnet hefur samið við fyrirtækin LNS Saga ehf. og Leonhard Nilsen & sønner AS um jarðvinnu og byggingu húsa fyrir ný tengivirki Landsnets á Bakka og Þeistareykjum. Samningurinn, sem hljóðar upp á 1,2 milljarða króna, var undirritað í dag af Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets og Ásgeiri Loftssyni, framkvæmdastjóra LNS Saga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti.

Samkomulagið var undirritað í framhaldi af útboði, en LNS Saga og Leonhard Nilsen & sønner voru þau einu sem gerðu tilboð í verkið. Kostnaðaráætlun Landsnets vegna verksins hljóðaði upp á 1,5 milljarð króna og var því 300 milljónum hærra en tilboð fyrirtækjanna.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í júní og verði lokið 15. september á næsta ári. Með framkvæmdunum er verið að tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við Þeistareykjavirkjun og raforkuflutningskerfið.  Í tilkynningu er haft eftir Guðmundi Inga að mikilvægt sé að verkið gangi vel, þar sem afhending raforku til kísilmálverksmiðju PCC á Bakka eigi að hefjast 1. nóvember.

Landsnet hyggst leggja í 35 milljarða króna fjárfestingu í raforkuflutningskerfinu á næstu þremur árum. Er þetta mikil aukning því á síðustu tveimur árum var samtals fjárfest fyrir 8 til 9 milljarða króna.