Heildarviðskiptin með bréf Arion banka í kauphöll Nasdaq í dag námu rétt rúmlega 12 milljörðum króna, en bréf bankans lækkuðu í þeim um 1,46%, niður í 94,70 krónur. Taconic Capital Management tók tilboðum í 7% í bankanum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Meðal kaupenda að hlutnum virðist vera Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem keypti 13,6 milljónir bréfa í bankanum, eða sem samsvarar 0,79% hlut samkvæmt flöggun þar sem eignarhlutur sjóðsins fór yfir 5% mörkin, eða í 5,67%.

Langmestu viðskiptin á hlutabréfamarkaði í dag voru eins og gefur að skilja með bréf bankans, en heildarviðskiptin í dag námu 13,2 milljörðum og lækkaði Úrvalsvísitalan í þeim um 1,27%, niður í 2.606,75 stig.

Eins og fjallað hefur verið um í fréttum síðustu daga bauð stærsti eigandi bréfa í bankanum, erlendi vogunarsjóðurinn Taconic Capital Management, eigandi um 23% hlut, til sölu 10% eignarhlut í bankanum til ýmissa lífeyrissjóða, verðbréfasjóða, tryggingafélaga og annarra fjárfestingarfélaga.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 200,2 milljónir króna, en bréf fyrirtækisins lækkuðu í þeim um 1,55%, niður í 824 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Símans, eða fyrir 183,6 milljónir króna, en verð bréfanna stóð í stað í þeim í 8,10 krónum.

Mest lækkun á viðskiptum með bréf í einu félagi í dag var á bréfum Iceland Seafood International, eða um 3,12%, niður í 12,42 krónur, í 59 milljóna króna viðskiptum. Næst mest lækkun var á bréfum Sjóvá, eða um 1,80%, niður í 30 krónur í 60 milljóna króna viðskiptum, og þriðja mesta lækkunin var á bréfum Brim, eða um 1,64%, í þó ekki nema 2 milljóna króna viðskiptum.

Einu bréfin sem hækkuðu í dag voru bréf Origo, en þau hækkuðu um 0,75%, upp í 40,30 krónur, í 17 milljóna króna viðskiptum.

Stöðugt gengi gagnvart evru þriðja daginn í röð

Gengi íslensku krónunnar stóð í stað gagnvart evru þriðja daginn í röð , eða í sölugenginu 157,52 krónum, en krónan veiktist gagnvart öllum öðrum helstu viðskiptamyntum sínum nema dönsku og sænsku krónunni.

Veiking sænsku krónunnar nam 0,22%, niður í 15,577 króna sölugengi, en norska krónan veiktist um 0,43%, niður í 15,090 króna sölugengi, meðan danska krónan styrktist um 0,03% gagnvart þeirri íslensku og fæst nú á sölugenginu 21,180 krónur.

Mest styrking gagnvart krónu var á gengi Bandaríkjadals, eða um 0,57%, upp í 130,28 króna sölugengi, næst mest var styrking breska sterlingspundsins eða upp í 178,53 króna sölugengi.

Þar á eftir kom svissneski frankinn sem styrktist um 0,34%, upp í 146,47 króna sölugengi, og loks japanska jenið af helstu viðskiptamyntunum, en það styrktist um 0,18%, upp í 1,2518 króna sölugengi.