Það var fremur rólegt á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag, en veltan nam 3,7 milljörðum króna. Einungis tvö félög hækkuðu í viðskiptum dagsins, en 13 félög lækkuðu. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,15% og stendur í 3.208,98 stigum.

Gengi hlutabréfa Iceland Seafood hækkaði um tæp 2% í 117 milljóna króna viðskiptum. Síldarvinnslan hækkaði lítillega, um 0,1%, í 70 milljóna viðskiptum.

Hlutabréfaverð í Arion lækkaði um 1,1%, en viðskipti með bréfin námu tæpum milljarði. Velta með bréf Skeljungs nam milljarði króna, en gengi bréfanna breyttist þó ekki. Marel lækkaði mest allra félaga á markaði, um 1,73% í 315 milljón króna viðskiptum.

Á First North Markaðnum hækkaði gengi Hampiðjunnar um 0,8% í 2 milljóna viðskiptum og bréf Play hækkuðu um 0,4% í 40 milljóna viðskiptum. Gengi bréfa Solid Clouds lækkaði um rúm 18% í 100 þúsund króna veltu.

Meira líf var á skuldabréfamarkaðnum samanborið við hlutabréfamarkaðinn, og nam veltan tæpum 12 milljörðum króna. Ávöxtunarkrafan hækkaði nokkuð á óverðtryggðum skuldabréfaflokkum, þar af hækkaði krafan á skuldabréfaflokk RIKB 24 0415 um 36 punkta og námu viðskipti með bréfin tæpa tvo milljarða króna.