Rekstur Flugleiðasamstæðunnar, sem er móðurfélagið Flugleiðir og 13 dótturfélög, gekk vel á fyrri helmingi ársins. Velta var 18,9 milljarðar króna og jókst um 18%. Niðurstaða rekstrareiknings varð jákvæð á þessum árshelmingi í þriðja sinn frá stofnun félagsins. Hagnaður varð af starfseminni fyrir tekjuskatt að fjárhæð 33 milljónir króna. Á sama tímabili á síðasta ári var 1.100 milljóna króna tap af starfseminni. Afkoman hefur því batnað um 1.133 milljónir króna. Hluta batans má rekja til söluhagnaðar en afkoma af rekstri fyrir söluhagnað og skatta batnaði um hér um bil hálfan milljarð króna. Hagnaður eftir skatta var 12 milljónir króna á móti 903 milljóna króna tapi árið 2003.

Rétt er að hafa í huga að mikil árstíðasveifla er jafnan í starfsemi Flugleiða og þótt tap hafi verið fyrir skatta upp á 1.100 milljónir króna fyrstu sex mánuði 2003 var hagnaður á árinu í heild um 1.406 milljónir króna. Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, kynnti 6 mánaða uppgjör félagsins í dag og sagði við það tækifæri að nú væri spáð betri afkomu af félaginu á árinu 2004 en árið 2003.

Betri afkoma í flestum rekstrareiningum

Afkoma af rekstri flestra dótturfélaga Flugleiða er betri en á fyrri helmingi síðasta árs. Afkoma Icelandair, stærsta dótturfélags Flugleiða, hefur batnað þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður. Verulegur viðsnúningur hefur orðið til hins betra í rekstri Loftleiða Icelandic, sem stundar alþjóðlegt leiguflug, og umtalsverður rekstrarbati er hjá Flugleiðum Frakt. Þá hefur rekstur Flugfélags Íslands og Flugleiðahótela styrkst töluvert.

Helstu breytingar í rekstri Icelandair eru mikil fjölgun farþega frá fyrra ári en á móti kemur lækkun fargjalda og mikil verðhækkun á eldsneyti. Gert er ráð fyrir að eldsneytisverðhækkanir hafi meiri áhrif á afkomuna á seinni helmingi ársins. Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, sem jafnframt er forstjóri Icelandair, sagði í dag, að það væri til marks um styrk Icelandair og uppbyggingu félagsins undanfarin ár að spáð væri hagnaði af starfsemi félagsins á árinu í heild þrátt fyrir eldsneytisverðhækkanir og þrátt fyrir mjög aukna samkeppni í alþjóðlegu áætlunarflugi, sem stefni afkomu flestra alþjóðaáætlunarflugfélaga í uppnám.

Afkoma af starfsemi Flugleiðasamstæðunnar fyrir tekjuskatt varð sem fyrr segir 33 milljóna króna hagnaður, en fyrstu sex mánuði 2003 var tap að fjárhæð 1.100 milljónir króna. Sigurður Helgason sagði, þegar 6 mánaða uppgjör félagsins var kynnt í dag, að afkoma dótturfélaga Flugleiða væri mun betri og jafnari eftir breytingar á skipulagi félagsins undanfarin ár.

18% vöxtur milli ára

Rekstrartekjur Flugleiða og dótturfyrirtækja fyrstu sex mánuði ársins voru 18,8 milljarðar króna en voru 15,9 milljarðar á sama tímabili 2003. Þetta er liðlega 18% aukning umsvifa. Um helming þessarar aukningar má rekja til alþjóðlegs leiguflugs og fraktflugs.

Rekstrargjöld hækkuðu um 15% og afkoma samstæðunnar fyrir fjármagnsliði batnaði um nær 400 milljónir króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 348 milljónir króna en voru í fyrra neikvæðir um 387 milljónir króna. Þar munar um 735 milljónum króna sem skýrist að mestu af 560 milljóna króna söluhagnaði hlutabréfa í Burðarási og söluhagnaði sem féll til þegar Flugleiðir seldu hlut sinn í tölvurekstrarfyrirtækinu Skyggni nú nýverið til Tölvumynda hf., og eignuðust í staðinn hlut í Tölvumyndum.

Fjármunamyndun í starfsemi Flugleiða var traust fyrstu sex mánuði ársins. Handbært fé frá rekstri Flugleiða á tímabilinu var tæplega 3,7 milljarðar króna en var um 2 milljarðar króna á sama tímabili 2003. Handbært fé fyrirtækisins í lok tímabilsins var tæplega 9 milljarðar króna og hefur aukist um 3 milljarða króna frá fyrra ári. Bókfært eigið fé félagsins í lok júní var 8,8 milljarðar króna en var 7,4 milljarðar króna á sama tíma 2003.

Starfsemi móðurfélags samstæðunnar styrkt til að leiða framtíðarvöxt

Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, sagði í dag, að skipting félagsins í móðurfélag og dótturfélög með skýra ábyrgð á eigin rekstri hefði tvímælalaust átt mikinn þátt í að styrkja afkomu fyrirtækisins undanfarin tvö ár. Flugleiðir muni áfram starfa með sama hætti og leita leiða til aukins vaxtar í gegnum öll dótturfélög samstæðunnar og fylgja eftir meginstefnuáherslum samstæðunnar undir leiðsögn móðurfélagsins:

· Auka enn vöxt í starfseminni og nýta tækifæri á nýjum mörkuðum í alþjóðlegu leiguflugi, fraktflugi og fleiri sviðum.

· Herða enn sókn á alþjóðlegan ferðamannamarkað sem hefur skilað umtalsvert meiri vexti í ferðaþjónustu hér á landi en í nágrannalöndum beggja vegna Atlantshafs og ætlað er að styrkja enn starfsemi þeirra dótturfélaga sem sinna þjónustu við erlenda ferðamenn.

· Auka sveigjanleika í rekstrinum til að takast á við sveiflukenndan markað.

· Lækka kostnað með stöðugri breytingu vinnuferla og innleiðingu á nýrri tækni.

Starfsemi móðurfélagsins, Flugleiða, verður enn efld og innan þess sett upp Stefnumótunar- og fjármálasvið (Strategy and Corporate Finance) til að vinna að áformum fyrirtækisins um aukinn vöxt og fylgja eftir arðsemismarkmiðum. Framkvæmdastjóri þess verður Einar Sigurðsson