*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 18. mars 2015 15:55

1,2 milljónir ferðamanna til Íslands

Ferðamönnum til Íslands fjölgaði um 34% á milli ára fyrstu tvo mánuði þessa árs.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjöldi ferðamanna um Leifsstöð jókst um 34% milli ára bæði í janúar og febrúar en Greiningardeild Arion banka hafði spáð 25% aukningu á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þetta kemur fram í markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka. „Fjölgun ferðamanna hingað til lands hefur farið fram úr björtustu vonum frá árinu 2010 en seinustu fjögur ár hefur fjölgunin ávallt verið hlutfallslega meiri en árið áður og í fyrra var 24% aukning í komum erlendra gesta um Keflavíkurflugvöll milli ára. Í raun hefur verið fjölgun í hverjum einasta mánuði frá sama mánuði ársins áður frá árinu 2011.“

Vegna rýmistakmarkana í gistirými hefur Greiningardeildin viljað fara varlega að spá aukningu í fjölda ferðamanna yfir sumarmánuðina. Hinsvegar standa yfir aukningar á gistirými og því eru þær takmarkanir ekki þær sömu. Greiningardeildin spáir því að ferðmönnum til landsins í ár fjölgi um 20% en fjölgunin verði 16% árið 2016 og 13% árið 2017. Samkvæmt spánni koma því tæplega 1,2 milljón ferðamanna til landsins í ár.