Um 12 þúsund manns hafa bókað sig í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu (ÍE) fyrir skimum á Covid-19 veirunni. Skimanir fyrirtækisins hófust nú í morgun eftir að nauðsynleg verkfæri til verksins bárust til landsins.

Áhrif Covid-19 veirunnar á samfélagið ættu ekki að hafa dulist neinum en yfir hundrað hafa nú smitast af henni hér á landi og fleiri eru í sóttkví. Hingað til hefur eingöngu smituðum eða þeim sem gætu verið smituð staðið skimum til boða en með rannsókn ÍE stendur til að kanna hvort útbreiðsla veirunnar sé meiri en áður var talið. Niðurstöður rannsóknarinnar geta síðan haft áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda í framhaldinu.

Skimanir fyrirtækisins fara fram í Turninum, Smáratorgi 3 í Kópavogi. Þeir sem skrá sig í sýnatöku munu fá póst frá rannsakanda um það á hvaða tíma því ber að mæta í skimun. Er það gert til að koma í veg fyrir að örtröð myndist með tilheyrandi smithættu og álagi. Í tilkynningu frá ÍE segir að fæstir sem koma í skimun hafi fundið fyrir einkennum og því líklega ekki smitandi. Því sé ekki meiri hætta á smiti í húsinu heldur en á öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fólk kemur saman.

„12 þúsund höfðu bókað tíma klukkan níu í morgun og enn er opið fyrir bókanir. Um leið og þessi mikla þátttaka er ánægjuleg er ljóst að hún veldur álagi á það starfsfólk sem fyrir er í húsinu sem tengist ekki Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna þar sem skimanir fara fram. Það er einkum vegna aukinnar umferðar um húsið þessa dagana. Fólk á þakklæti skilið fyrir skilning og þolinmæði en baráttan við COVID-19 er samfélagslegt verkefni og á ábyrgð okkar allra að vel takist til,“ segir í tilkynningu frá ÍE.