Íbúðalánasjóður hefur til sölu 123 fermetra íbúð í tvíbýlishúsi að Urðargötu á Patreksfirði. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að uppsett verð er ein milljón króna.

Fermetraverð íbúðarinnar er samkvæmt þessu rúmlega 8.000 krónur. Til samanburðar var meðalfermetraverð í miðborg Reykjavíkur 377.000 krónur árið 2014, að því er fram kom í umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans í mars, og er það væntanlega enn hærra nú.

Íbúðin hefur verið skráð á fasteignavef mbl.is síðan í september 2014 og var auglýsingunni síðast breytt í ágúst á síðasta ári. Í auglýsingunni segir að Íbúðalánasjóður mæli sérstaklega með því að eignin sé skoðuð með fagmönnum og að lagnir séu myndaðar. Ekki er vitað um ástand heimilistækja og er eldhúsinnréttingin sögð „mjög léleg“.

„Eignin er í mjög lélegu ástandi að innan sem utan. Ekkert rafmagn er á húsinu,“ segir jafnframt í auglýsingunni.

Fasteignasala Vestfjarða hefur eignina til sölu. Guðmundur Óli Tryggvason, fasteignasali hjá fasteignasölunni, segir tilboð hafa borist í húsið en að ekkert þeirra hafi gengið. „Þetta er illa farið,“ segir Guðmundur.