Áætlanir Verne Global gera ráð fyrir því að afkastageta gagnavers félagsins í Reykjanesbæ verði allt að 120 megavött á næstu árum. Þetta segir Isaac Kato, einn stofnenda og framkvæmdastjóri fjármálasviðs Verne Global.

Félagið hefur þegar tryggt sér framtíðaraðgang að raforku með langtímasamningi við Landsvirkjun, samkvæmt Lisu Rhodes, markaðsstjóra félagsins. Það jafngildir því að gagnaverið nýti nær alla orku úr Búðarhálsi og Svartsengi samanlagt.

Gagnaverið notar samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins um 7 megavött af raforku um þessar mundir svo ljóst er að forsvarsmenn þess eru mjög bjartsýnir á framhaldið.

„Við teljum mjög líklegt, ef við höldum öll rétt á spilunum, að gagnaver nýti hundruð megavatta af orku á Íslandi og þeim muni fjölga mjög,“ segir Kato.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .