Samkvæmt skýrslu frá McKinsey mun þurfa um 9,2 þúsund milljarða dala fjárfestingar á hverju einasta ári til ársins 2050 til að alþjóðlegum loftslagsmarkmiðum verði náð. Það er í það minnsta 3,5 billjónum (e. trillion) dala umfram núverandi fjárfestingar í bæði lágkolefna- og jarðefnaeldsneytisinnviðum og fjárfestinga í breytingum á landnotkun, að því er fram kemur í frétt Bloomberg .

Sérfræðingar hjá McKinsey segja að ef ná á loftslagsmarkmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 þurfi notkun kola í orkuframleiðslu í heiminum að dragast nær alfarið saman, olíuframleiðsla minnka um 55% og gasframleiðsla um 70%.

Gert er ráð fyrir að 200 milljónir nýrra starfa komi í stað þeirra 185 milljón starfa sem ekki verður lengur þörf fyrir í breyttu alþjóðlegu hagkerfi. Auk þess muni orkuskiptin hækka orkuverð eitthvað á næstu áratugum, eða sem nemur 20% hækkun til 2050.

Þessar miklu grænu fjárfestingar munu fela í sér meiri kostnað fyrir þróunarlönd og lönd sem reiða sig á kolaframleiðslu í samanburði við ríkari lönd og lönd sem hafa nú þegar hafið orkuskipti. Samkvæmt útreikningum McKinsey þurfa Rússar að verja rúmum 20% af landsframleiðslu sinni í grænar fjárfestingar (net-zero investment), þ.e. fjárfestingar til að stuðla að kolefnishlutleysi. Þess má geta að kolaframleiðsla nemur um 60% af orkuframleiðslu Rússa.

Mið-Austurlönd og lönd í Norður-Afríku munu þurfa að verja um 16% af landsframleiðslu sinni í slíkar fjárfestingar og Indland um 11%, en kolaframleiðsla nemur um 45% af orkuframleiðlu Indlands. Til samanburðar munu Bandaríkin, Bretland og Evrópa þurfa að verja um 6,5% af sinni landsframleiðslu í grænar fjárfestingar.