Landsbankinn býður til sölu, í heild eða að hluta, allt að 12,1% eignarhlut í fjárfestingarfélaginu Eyri Invest hf. Þetta kemur fram í frétt á vef Landsbankans.

Söluferlið fer fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og er öllum opið sem teljast vera hæfir fjárfestar skv. skilgreiningu í 9. tl. 43. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Eyrir Invest hf. er fjárfestingarfélag sem stofnað var árið 2000. Langstærsta eign Eyris Invest hf. er 25,9% eignarhlutur í Marel hf. Eyrir Invest hf. á einnig tæpan helmings hlut í Eyri Sprotum slhf., fjárfestingarfélagi sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum, og um þriðjungshlut í Efni ehf., sem sérhæfir sig í að byggja upp nýjar markaðs- og söluleiðir fyrir fyrirtæki í gegnum netsölu og samfélagsmiðla.

Tilboðsfrestur er til kl. 12.00 miðvikudaginn 28. nóvember 2018.