Tap verslunarfyrirtækisins Haga fyrir skatta, að teknu tilliti til fjármagnsliða á síðasta hálfsárs rekstrartímabili nam 147 milljónum króna, en fjármagnsliðir voru nettó neikvæðir um 766 milljónir króna. Að teknu tilliti til reiknaðra skatta nam tap félagsins 121 milljón króna á tímabilinu að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrartekjur Haga ehf. námu 22.241 milljónum kr. á síðasta hálfsárs rekstrartímabili en rekstrargjöld án afskrifta námu 4.619 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 1.037 milljónum kr. Afskriftir námu 418 milljónum kr. og hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta nam 619 milljónir kr. á tímabilinu.

Heildareignir félagsins námu 24.386 milljónum kr. í ágústlok 2006. Fastafjármunir námu samtals 16.346 milljónir kr. og veltufjármunir námu 8.040 milljónum kr. en þar af nema kreditkortakröfur 2.741 milljónir kr. Heildarskuldir félagsins námu 16.886 milljónum kr., þar af námu langtímaskuldir 8.926 milljónum kr. Eigið fé og víkjandi lán nam 7.500 milljónum kr. eiginfjárhlutfall að teknu tilliti til víkjandi láns var 31 % í ágústlok 2006.

Fyrirtæki Haga eru eftirfarandi: Bónus, Debenhams, Hagkaup, Ferskar kjötvörur, 10-11, Noron (Zara), Aðföng, Útilíf, Stórkaup, Res, Topshop, Bananar, Hýsing og Íshöfn.

Stöðugildi hjá félaginu þann 31.ágúst námu 1.608.

Hlutafé félagsins nam 1.015 millj. kr. í lok reikningsársins. Hluthafar félagsins í lok tímabilsins eru:
Baugur Group hf. 72,8%
Talden Holding S.A. og Orchides Holding S.A. 27,2%