Hagnaður verðbréfa- og fjárfestingasjóða Íslandssjóða nam 12,3 milljörðum króna á árinu 2020 og rennur til viðskiptavina Íslandssjóða í formi ávöxtunar, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Þar segir jafnframt að Íslandssjóðir hafi hagnast um 482 milljónir króna árið 2020 og hreinar rekstrartekjur numið 1.846 milljónum króna. Starfsfólk Íslandssjóða fylgi aðferðum ábyrgra fjárfestinga í allri eignastýringu. Þá stýri Íslandssjóðir eina græna skuldabréfasjóði landsins. Alls hafi eignir í stýringu hjá Íslandssjóðum verið 349 milljarðar króna í árslok.

„Allir verðbréfa- og fjárfestingasjóðir skiluðu jákvæðri ávöxtun á árinu. Sjóðurinn IS Einkasafn E skilaði bestu ávöxtun allra blandaðra sjóða á landinu og fleiri sjóðir Íslandssjóða voru í efstu sætum á landsvísu samkvæmt flokkun Keldunnar (keldan.is),“ segir í tilkynningunni.

Afkoma Íslandssjóða hf. árið 2020:

  • Hagnaður verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, í formi ávöxtunar til viðskiptavina, var 12.275 m.kr. samanborið við 10.421m.kr. árið áður. Sjóðirnir eru 22 talsins og nam hrein eign þeirra um 200 milljörðum króna í árslok.
  • Hagnaður Íslandssjóða hf. nam 482 m.kr. eftir skatta samanborið við 436 m.kr. árið 2019.
  • Hreinar rekstrartekjur námu 1.846 m.kr. samanborið við 1.713 m.kr. árið áður.
  • Rekstrargjöld námu 1.244 m.kr. samanborið við 1.168 m.kr. árið áður.
  • Eigið fé í árslok 2020 nam 1.979 m.kr. en var 2.433 m.kr. í ársbyrjun. Eiginfjárhlutfall félagsins, sem reiknað er samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, var 50,9% í árslok 2020 en má lægst vera 8%.

Lykiltölur í milljónum króna:

Íslandssjóðir - lykiltölur
Íslandssjóðir - lykiltölur
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Það er ánægjulegt að ávöxtun viðskiptavina okkar hafi verið svo góð á þessu sérstaka ári.  Stýring sjóða og eignasafna viðskiptavina okkar gekk með afburðum vel og allir helstu eignaflokkar skiluðu sparifjáreigendum góðri ávöxtun á árinu. Þá hefur ekki síður verið gaman að sjá sparnað stóraukast hjá landsmönnum í þessu ástandi . Sjóðir Íslandssjóða sem eru opnir öllum sparifjáreigendum hafa stækkað hratt undanfarið og eru nú komnir yfir 200 milljarða að stærð, stærst allra sjóðastýringarfélaga hér á landi. Vaxtastig er lágt en skuldabréf og sérstaklega hlutabréf hafa skilað mjög góðri ávöxtun sem hvetur fólk til að spara og fjárfesta,“ er haft eftir Kjartani Smára Höskuldssyni, framkvæmdastjóra Íslandssjóða, í tilkynningunni.