*

föstudagur, 29. maí 2020
Erlent 12. nóvember 2018 11:44

123 milljarðar á 85 sekúndum

Alibaba seldi vörur fyrir 123 milljarða króna á 85 sekúndum á degi einhleypra í gær.

Ritstjórn
Mikið var um að vera í Peking, höfuðborg Kína, í tilefni dags einhleypra í gær.
epa

Kínverski netverslunarrisinn Alibaba setti sölumet í gær þegar hann seldi vörur fyrir milljarð dollara, um 123 milljarða króna, á aðeins 85 sekúndum, í upphafi hins svokallaða dags einhleypra. Fyrsta klukkutíman nam salan tæpum 10 milljörðum dollara, og þegar upp var staðið höfðu verið seldar vörur fyrir yfir 30 milljarða dollara, sem er aukning um rúman fjórðung frá því í fyrra. BBC greinir frá.

Hinn svokallaði dagur einhleypra (Singles‘ day) – sem netrisinn fann sjálfur upp sem mótvægi við hinn þekkta dag ástarinnar, Valentínusardaginn, árið 2009 – er nú orðinn umfangsmesti útsöludagur ársins, og í ár nam veltan meira en á hinum svokallaða Svarta föstudegi (Black Friday), og Rafrænum mánudegi (Cyber Monday), til samans.

Hingað til hefur netrisinn fyrst og fremst boðið upp á tilboðin á kínamarkaði, en á síðasta ári var ákveðið að láta hefðina ná yfir vesturlönd líka, sem skilaði sér í fjöldamörgum nýsóknum snjallforrits fyrirtækisins, AliExpress.

AliExpress hefur notið töluverðra vinsælda á Íslandi, og fjölmargar íslenskar verslanir tóku þátt í hefðinni í gær og buðu upp á afslætti í netverslunum sínum.