Penninn ehf. skilaði 123 milljóna króna hagnaði eftir skatta á rekstrarárinu 2013–2014 en rekstrarár félagins hófst 1. mars 2013 og lauk 28. febrúar síðastliðinn. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði var 216 milljónir króna en á sama tímabili árið áður var sá hagnaður 23 milljónir króna.

Í afkomutilkynningu segir að þetta sé í fyrsta skipti í nokkur ár sem fyrirtækið er rekið með hagnaði en félagið hefur gengið í gegnum mikla endurskipulagningu á síðustu misserum. Rekstrartekjur félagins voru um 4.859 millj. kr. samanborið við 4.713 millj. kr. í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 267 millj. kr. en var 66 millj. kr. árið áður.

Eignir Pennans ehf. voru í lok rekstrarársins 1.805 millj. kr., heildarskuldir 1.369 millj. kr. og eigið fé nam um 436 millj. kr. Eiginfjárhlutfall félagins er því rúm 24%. Skuldir félagins lækkuðu um 480 millj. kr. á milli ára.

Alls störfuðu um 300 starfsmenn hjá félaginu á síðasta rekstrarári í 205 ársverkum.

Penninn rekur í dag 18 verslanir um land allt. Félagið rekur verslanir á höfuðborgarsvæðinu, í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli, í Vestmannaeyjum, á Akureyri, Ísafirði og Akranesi. Húsgagnasvið Pennans er í Skeifunni 10 og vöruhús í Kópavogi og á Keflavíkurflugvelli.

Penninn ehf. mun opna nýja verslun á Laugarvegi 77 í byrjun júnímánaðar en þar verður á boðstólum úrval bóka, ritfanga og gjafavöru. Samhliða verður opnað glæsilegt kaffihús í versluninni.

Í ágúst 2012 keyptu þeir Stefán Franklín, Ólafur Stefán Sveinsson og Ingimar Jónsson Pennann ehf. af Arion banka eftir að félagið hafði verið sett í opið söluferli.