Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í maí 2008 er 304,4 stig og hækkaði um 1,37% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 273,6 stig og hækkaði um 1,48% frá apríl.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þetta þýðir að síðastliðna tólf mánuði  hefur vísitala neysluverðs hækkað um 12,3% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 11,4%.

Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári (32,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis).

Á vef Hagstofunnar kemur fram að gengissig krónunnar og erlendar verðhækkanir halda áfram að skila sér út í verðlagið og hækkaði verð á innfluttum vörum um 1,7%. Verð á bensíni og olíum um 5,7% (0,26%).

Kostnaður vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,2% (-0,04%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,15% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,11%. Þá hækkaði kostnaður vegna viðhalds og viðgerða húsnæðis um 5,7% (0,27%).

Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,9% (0,23%).

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í maí 2008, sem er 304,4 stig, gildir til verðtryggingar í júlí 2008. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 6.010 stig fyrir júlí 2008.