Af þeim 161,5 tonnum rafhlaðna sem flutt voru inn til landsins á árinu 2005 var aðeins rúmlega 37 tonnum skilað. Þetta eru ekki nema 21% af öllum seldum rafhlöðum hér á landi. Þetta þýðir að hvorki meira né minna en rúm 124 tonn af rafhlöðum hafa farið beint í ruslið og því verið urðuð með öðru sorpi.

Úrvinnslusjóður hrindir í dag af stað kynningarátaki vegna söfnunar á ónýtum rafhlöðum til úrvinnslu. Markmið átaksins er að fá fleiri til að safna og skila notuðum rafhlöðum, auka vitund almennings um mikilvægi þess að rafhlöðum sé skilað og vekja athygli á að einfalt sé að losna við þær. Þátttakendur í kynningarátakinu ásamt Úrvinnslusjóði eru Olís, Efnamóttakan, Gámaþjónustan og Hringrás.

Árið 2004 var aðeins 18% rafhlaðna skilað til úrvinnslu og ári seinna, 2005, var hlutfallið komið í 21%. Samkvæmt könnun sem Capacent gerði fyrir Úrvinnslusjóð safna 22% landsmanna rafhlöðum til úrvinnslu. Nýleg rafhlöðutilskipun Evrópusambandsins sem verður innleidd á Íslandi innan tíðar kveður á um að skilahlutfall rafhlaðna skuli vera komið í 25% á árinu 2012 og 45% árið 2016. Hér er því verk að vinna.

Í frétt Úrvinnslusjóðs er bent á að rafhlöður eiga ekki að fara í ruslið heldur á að skila þeim til úrvinnslu. Það er í raun sáraeinfalt og nokkrar leiðir í boði. Hægt er að skila inn ónýtum rafhlöðum á bensínstöðvum, m.a. hjá Olís, og söfnunarstöðvum sveitarfélaga um land allt, auk þess sem hægt er að setja þær í endurvinnslutunnur fyrir flokkað heimilissorp.