Líklegt þykir að skráð atvinnuleysi hafi náð hámarki í janúar, en heildaratvinnuleysi féll um 0,3% milli mánaða í febrúar. Nokkur ástæða er sögð til bjartsýni, og almennt er reiknað með minnkandi atvinnuleysi þegar líður á árið. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans og frétt Vinnumálastofnunar .

Almennt atvinnuleysi nam 11,4% í febrúar og féll um 0,2% milli mánaða, en í frétt RÚV um málið er haft eftir Unni Sverrisdóttur forstjóra Vinnumálastofnunar að almennt standi atvinnuleysi í stað eða aukist í febrúar. Loðnuvertíð og tilslakanir í sóttvarnarmálum hafi haft mest að segja að hennar mati.

Sleginn er hóflega bjartsýnn tónn í Hagsjánni, og á það bent að áframhaldandi fallandi atvinnuleysi næstu misseri verði háð hraða bólusetninga og því hvernig tekst að halda faraldrinum í skefjum, bæði hérlendis og í okkar helstu viðskiptalöndum.