Fjárframlög til heilbrigðismála hækka um 12,6 milljarða króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum, samkvæmt tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Megináherslur í heilbrigðismálum í frumvarpinu eru sagðar vera greiðara aðgengi að heilsugæslu, lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, framkvæmdir við nýjan Landspítala, öflugri göngudeildarþjónusta, styrking heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, uppbygging hjúkrunarrýma og bætt geðheilbrigðisþjónusta.

Framlög til heilsugæslu verða aukin um tæpan milljarð, og sama upphæð sett í að draga úr greiðsluþáttöku sjúklinga. Þá verða 4,5 milljarðar króna lagðir í uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut.

450 milljónir verða settar í að bæta mönnun og efla göngudeildarþjónustu, 400 milljónir í heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og 440 milljónir í uppbyggingu hjúkrunarrýma, auk 100 til viðbótar í fjölgun dagdvalarrýma.

840 milljónir fara í styttingu biðlista, framlög til innleiðingar nýrra S-merktra lyfja verða aukin um 200 milljónir, og loks eru um 50 milljónir króna settar í að koma á fót neyslurými í Reykjavík fyrir einstaklinga sem nota vímuefni í æð.