*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 1. september 2020 14:16

126 milljarða viðskipti með skuldabréf

Íslandsbanki var með mestu hlutdeildina í viðskiptum á skuldabréfamarkaði í ágúst sem ríflega tvöfaldaðist milli mánaða.

Ritstjórn

Í ágústmánuði námu heildarviðskiptin með skuldabréf í kauphöllinni 126 milljörðum króna, eða sem samsvarar 6,3 milljörðum króna á viðskiptadegi að jafnaði. Þar af voru 67,4 milljarða viðskipti með ríkisbréf og 29,4 milljarða viðskipti með bankabréf.

Þetta er ríflega tvöföldun, eða 133% hækkun, frá fyrri mánuði þegar viðskiptin námu 2,7 milljörðum króna á dag með skuldabréf. Hækkunin milli ára nam þó helmingi, það er 50%, en í ágúst 2019 námu viðskiptin 4,2 milljörðum króna á dag.

Þrátt fyrir það lækkaði aðalvísitala skuldabréfa um 0,09% í ágústmánuði, og stendur hún nú í 1.709 stigum, en óverðtryggða skuldabréfavísitalan lækkaði um 0,47%, meðan sú verðtryggða hækkaði um 1,09%.

Ávöxtunarkrafa fimm ára óverðtryggðu skuldabréfabréfavísitölunnar er nú 2,43%, sem er hækkun um 29 punkta, ávöxtunarkrafa eins árs óverðtryggðu vísitölunnar er 1,01%, sem er hækkun um 1 punkt og ávöxtunarkrafa fimm ára verðtryggðu vísitölunnar er -0,6%, sem er lækkun um 25 punkta.

Íslandsbanki var með mestu hlutdeildina í viðskiptum á skuldabréfamarkaði eða 22,9%, Kvika var næstur með 18,8% og Arion banki þar á eftir með 15,8%, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag var Arion banki með mestu hlutdeildina á hlutabréfamarkaði í ágústmánuði, en Íslandsbanki var þar í þriðja sæti.