Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) TM Software var 335 milljónir króna á síðasta ári en var 91 milljón árið áður.  Rekstrarhagnaður var 147 milljónir en árið áður var hann 58 milljónir eins og kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag. Hagnaður ársins 2004 var 126 milljónir, en var um 17 milljónir árið áður.  Allar helstu rekstrareiningar félagsins skiluðu jákvæðri afkomu fyrir árið, segir Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, en stefnt hefur verið að skráningu félagsins í Kauphöll Íslands.

Uppgjör félagsins taka nú mið af alþjóðlega reikningsskilastaðlinum, IFRS, og hefur það nokkur áhrif á framsetningu reikningsins.

Árið 2004 einkenndist af miklum breytingum í rekstri TM Software. Velta félagsins var 3.456 milljónir króna og jókst um 440% milli ára. Stafar hin mikla veltuaukning fyrst og fremst af því að Maritech og Skyggnir eru nú aftur hluti af samstæðu félagsins. Samanlögð velta félaganna jókst um alls 12% á milli ára.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.