*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 18. apríl 2021 12:48

1.280 milljónir í Baader félag

Kaupendur Skagans 3X lögðu 1,3 milljarða í félag sitt, BAADER Iceland Holding ehf., skömmu áður en kaupin gengu í gegn.

Ritstjórn

Baader-samsteypan lagði rúmlega 1.280 milljónir króna í félag sitt, BAADER Iceland Holding ehf., skömmu áður en kaup þess á Skaganum 3X gengu í gegn. Þetta kemur fram í tilkynningu til fyrirtækjaskrár Skattsins.

Sagt var frá kaupum hins þýska Baader á meirihluta í Skaganum í október á síðasta ári en þau gengu endanlega í gegn undir lok febrúarmánaðar. Kaupverð hefur ekki verið gefið upp en viðbúið er að það sé hærra en milljónirnar 1.280.

Velta Baader Ísland ehf. jókst árið 2019, nam 864 milljónum króna, en rekstrargjöld hækkuðu að sama skapi. EBITDA félagsins nam 13 milljónum það ár en hafði verið rúmar 90 milljónir árið á undan. Á sama tíma velti samstæða Skagans 3X 7,1 milljarði króna og dróst hún saman um 1,6 milljarða milli ára. Eignir félagsins námu 7,1 milljarði og eigið fé 3,4 milljörðum.

Félagið hafði verið í eigu forstjórans Ingólfs Árnasonar og Guðrúnar Sveinsdóttur. Ingólfur verður áfram forstjóri eftir kaup Baader.

Stikkorð: Skaginn 3X Baader