*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 23. október 2015 15:53

#12stig orðið skrásett vörumerki í eigu Vodafone

Vodafone á Íslandi hefur fengið myllumerkið #12stig skráð sem vörumerki. Fólki er heimilt að nota það áfram.

Ritstjórn
epa

Fjarskipti hf., betur þekkt sem Vodafone, hefur fengið #12stig viðurkennt sem skrásett vörumerki. Vörumerkið er skráð í flokkunum auglýsingastarfsemi, fjarskipti og skemmtistarfsemi.

Myllumerkið #12stig er mikið notað af Íslendingum á samfélagsmiðlum, einkum Twitter, á meðan á söngvakeppni Sjónvarpsins og Söngvakeppni evrópska sjónvarpsstöðva stendur. Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone er öðru fremur um formsatriði að ræða. Fyrirtækið hafi notað myllumerkið mikið í tengslum við tístrás og markaðsstarf í kringum söngvakeppnina. Ekki sé stefnt að neinum breytingum í þeim efnum.

Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone er sjálfsagt að fólk og fyrirtæki noti myllumerkið á Twitter og öðrum samfélagsmiðlum. Þá muni Ríkisútvarpinu vera leyft að nota myllumerkið í sínum útsendingum. Nánast sé um sameiginlegt verkefni að ræða, en Vodafone styrkir söngvakeppnina.

Stikkorð: Vodafone Eurovision