*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Erlent 5. febrúar 2018 12:02

Á 1,3% af skráðum hlutabréfum heimsins

Stærsta einstaka eign norska olíusjóðsins er 770 milljarða eignarhlutur í Apple.

Ritstjórn
Trond Grande, aðstoðarforstjóri norska olíusjóðsins.
Haraldur Guðjónsson

Norski olíusjóðurinn á 1,3% af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum og 2,3% af skráðum hlutabréfum í Evrópu. 66% af eignum sjóðsins eru í skráðum hlutabréfum, 32% í skuldabréfum og 2,5% í óskráðum fasteignum.

Verðmætasta einstaka hlutabréfaeignin er 0,89% hlutur í Apple sem metinn er á um 770 milljarða íslenskra króna.

Stærstur hluti af fjárfestingum sjóðsins er í Norður-Ameríku eða 42%, þar á eftir kemur Evrópa þar sem finna má 36% af markaðsvirði sjóðsins. Í Asíu og Eyjaálfu eru samtals 18% af fjárfestingum sjóðsins og 4% annars staðar í heiminum. Hagfræðingurinn Sony Kapoor, sem meðal annars hefur starfað sem ráðgjafi norskra stjórnvalda, og hefur verið álitsgjafi Finacial Times og Economist um málefni olíusjóðsins, hefur sagt að misráðin fjárfestingarstefna kostað sjóðinn 100-150 milljarða dollara eða 9-13% af heildarstærð sjóðsins.

Þar skipti óskynsamlegt fyrirkomulag á því hvernig fjárfestingaákvarðanir sjóðsins séu teknar að mestu. Helsta sérþekkingin á fjárfestingum sé innan olíusjóðsins sjálfs. Innan norska fjármálaráðuneytisins og Stórþingsins, sé sérfræðiþekking á fjárfestingum mun minni en þessir aðilar taki engu síður meiriháttar ákvarðanir um hvernig fjárfestingum sjóðsins skuli háttað. Ekki hafi verið hlustað nægjanlega á ráðgjöf sjóðsins, til að mynda hvað varðar innviðafjárfestingar, takmarkaðar fjárfestingar í ný­ markaðsríkjum og óskráðum hlutabréfum.

Rúmt ár er síðan stjórnendur olíusjóðsins lögðu til við fjármálaráðuneytið að hann fengi að stunda svokallaðar innviðafjárfestingum enda væri skipulag sjóðsins kjörið hvað varðar þarfir innviðafjárfesta, sem þurfa að vera þolinmóðir langtímafjárfestar. „Hingað til hefur fjármálaráðuneytið lagst gegn slíkum fjárfestingum en sagt að þeir muni endurmeta afstöðu sína bráðlega. Hvað bráðlega þýðir veit ég ekki,“ segir Grande.

Grande tekur ekki undir að ávöxtun sjóðsins hafi verið lág. Raunávöxtun sjóðsins hefur verið 4,1% frá árinu 1998. Mest hefur ávöxtunin verið síðustu fimm árin, 7,9% og þar af hefur ávöxtun af hlutabréfum verið mest eða 9,23%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.