Skráð atvinnuleysi í maí var 1,3% og hefur nánast ekkert breyst frá því í apríl, samkvæmt tölum sem Vinnumálastofnun birti í gær. Skráðir atvinnuleysisdagar í landinu öllu voru 47.418 sem jafngildir því að 2.062 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Fjármálaráðuneytið áætlar að mannafli á vinnumarkaði í maí sé rúmlega 158 þúsund manns.

Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu stendur nánast í stað í 1,2% í maí en lækkar örlítið á landsbyggðinni og stendur í 1,4%. Minnst var atvinnuleysið á Austurlandi 0,6% en mest á Norðurlandi eystra, 2,5%.

Fjöldi atvinnulausra hefur dregist saman um 38% frá sama mánuði í fyrra. Verulega hefur dregið úr atvinnuleysi á síðustu misserum samhliða örum hagvexti síðastliðinna ára. Samkvæmt greiningadeild Glitnis ríkir mikil spenna á vinnumarkaði sem kemur fram í hverfandi atvinnuleysi og launaskriði sem auki á verðbólguþrýsting.