Fjárfestingasjóðurinn Icelandic Tourism Fund I (ITF), sem er í rekstri Landsbréfa, skilaði tæplega 1,3 milljarða króna tapi á síðasta ári, samanborið við 154 milljóna króna hagnað árið áður. Var tapið bær eingöngu tilkomið vegna tæplega 1,2 milljarða neikvæðra gangvirðisbreytinga.

Eignir ITF voru metnar á 2,9 milljarða í árslok 2020 á sama tíma árið áður voru eignirnar metnar á 4,2 milljarða. Þá nam eigið fé 2,7 milljörðum í lok síðasta árs, samanborið við tæplega 4 milljarða króna árið áður.

Sjóðurinn á 21% eignarhlut í ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures og var hluturinn metinn á um 1,8 milljarða króna í lok síðasta árs, en á sama tíma árið áður var hluturinn metinn á 2,5 milljarða króna.

Þá er 20% eignarhlutur IFT í félaginu Íslenskar heilsulindir, sem er að meginhluta í eigu Bláa Lónsins, metinn á 270 milljónir króna, en árið áður nam verðmæti hlutarins 386 milljónum króna.

55% hlutur ITF í Eldfjalla- og jarðskjálftasýningunni Lava er færður niður í núll í bókum félagsins, en árið áður var hluturinn metinn á 174 milljónir króna.

Icelandair Group er stærsti hluthafi ITF með ríflega 29% hlut í sinni eigu og Landsbankinn er sá næst stærsti með tæplega 20% hlut. Hinir ýmsu íslensku lífeyrissjóðir eiga svo restina í sjóðnum.