Á árinu 2015 fóru tæplega 1,3 milljónir erlendra ferðamanna frá landinu um Keflavíkurflugvöll eða um 292.700 fleiri en á árinu 2014. Um er að ræða 30,2% aukningu milli ára. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Ferðamálastofu.

Um 70.900 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í desember síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 17.100 fleiri en í desember 2014. Aukningin nemur 31,9% milli ára.

Á árinu 2015 fóru um 450.300 Íslendingar utan eða um 50.300 fleiri en á árinu 2014. Aðeins einu sinni áður hafa ferðir Íslendinga utan verið fleiri á einu ári en það var árið 2007.

Þá ferðuðust um 32.900 Íslendingar til útlanda í desember síðastliðnum eða um 4.800 fleiri en í desember árið 2014.

Tekið skal fram að ótaldir eru þeir sem komu um aðra millilandaflugvelli, sem og þeir sem ferðuðust til landsins með Norrænu.