Í sviðsmynd Viðskiptaráðs er áætlað að samdráttur landsframleiðslu á þessu ári nemi 13%. Viðskiptaráð segir að sviðsmyndin sé „afar dökk en raunsæ.“ Rætist það verður samdrátturinn sá mesti frá árinu 1920.

„Efnahagsáfallið sem nú dynur yfir vegna COVID-19 er óviðjafnanlegt. Að mati flestra liggur fyrir að kreppan verði sú dýpsta í áratugi og jafnvel aldir, en hversu djúp og langvinn er afar óljóst,“ segir í greiningu Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð hefur sett upp haglíkan þar sem hægt er að sjá hvernig breytingar í einstökum hagtölum hafa á landsframleiðslu. Þar er bent á að söguleg gögn og haglíkön fanga illa núverandi atburði. Engu síður muni þróun landsframleiðslu gegna lykilhlutverki þar sem hún hefur afgerandi áhrif á atvinnustig, kaupmátt, tekjur ríkissjóðs og margt fleira.

Þá bendir Viðskiptaráð á að ef sviðsmyndin gangi eftir og næstu ár verði hagvöxtur í samræmi við meðalhagvöxtur á áranna 1997-2019 muni það taka átta ár að ná sama stigi landsframleiðslu á mann og árið 2019.

AGS sér fyrir sér minni samdrátt og snarpari viðspyrnu

Bjartsýnni sviðsmyndir og spár gera ráð fyrir bæði minni samdrætti og skarpari viðspyrnu á næsta ári. AGS spáir 7,2% samdrætti hér á landi á þessu ári en hagkerfið taki við sér á næsta ári þannig að það verði 6% hagvöxtur árið 2021. Í sviðsmynd sem Seðlabankinn gaf út í apríl miðaði dekkri sviðsmyndin við 6,9% samdrátt á þessu ári.