Síminn sagði í dag upp 13 starfsmönnum fyrirtækisins. Að sögn er þetta vegna áherslubreytinga á rekstri markaðs- og vefdeilda fyrirtækisins sem eru gerðar til að verja samkeppnishæfni Símans á markaði.

Að sögn Símans eru uppsagnirnar mikilvægt skref í því að rekstrarkostnaður lækki og boðleiðir innanhúss styttist. Verkefnum verður fækkað og önnur færast úr húsi en stjórn þeirra verður áfram innanhúss.

Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem Síminn segir upp starfsmönnum, en 14 starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp í janúar sl. Ríflega 800 starfsmenn starfa hjá samstæðunni og um 530 hjá Símanum.

Þegar Viðskiptablaðið spurði Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans hvort að hún byggist við því að fleiri starfsmönnum yrði sagt upp á næstunni sagði hún:

„Mikil hreifing er á markaðnum og þróun fjarskipta hröð. Síminn endurmetur því stöðuna stöðugt og bregst við því sem hún sýnir.“