Hrein innlend lánsfjárþörf ríkisins á árinu er áætluð vera 130 milljarðar króna. Innlausnir og afborganir verða 185 milljarðar og lántökur 55 milljarðar. Mismuninum verður mætt að hluta með tekjum ríkissjóðs af stöðugleikaframlögum, rekstrarafgangi ríkissjóðs og vegna lækkunar á sjóðstöðu. Áætlað er að skuldastaða ríkissjóðs batni á árinu, en ekki er gert ráð fyrir breytingum á erlendri skuldastöðu.

Ársáætlun í lánamálum ríkissjóðs var birt 30. desember síðastliðinn. Henni er ætlað að veita almennar upplýsingar um útgáfur ríkissjóðs fyrir árið 2017. Áætlunin er birt í framhaldi af samþykkt fjárlaga á Alþingi og geymir m.a. hreina lánsfjárþörf ríkisins á árinu, áætlaða útgáfu ríkisbréfa, afborganir, innlausnir, endurkaup og skiptiútboð.

Lánsfjárþörf ríkissjóðs verður mætt með útgáfu ríkisbréfa fyrir um 45 milljarða króna að söluvirði, þ.e. án áfallinna vaxta, auk útgáfu ríkisvíxla fyrir um 10 milljarða. Lántaka ríkissjóðs á árinu er því áætluð um 55 milljarðar. Áætlað er að hrein útgáfa markflokka ríkisbréfa verði um 8 milljarðar og að staða ríkisvíxla lækki um 9 milljarða og verði 10 milljarðar í lok ársins. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á erlendri skuldastöðu ríkissjóðs á árinu. Á fyrsta ársfjórðungi 2017 verða boðin til sölu ríkisbréf í markflokkum fyrir 10-20 milljarða að söluvirði og stefnt er að útgáfu á nýjum 10 ára óverðtryggðum markflokki með gjalddaga árið 2028, að hámarki 15 milljarðar. Áformað er að gefa út til viðbótar í flokkunum RIKB20, að hámarki 8 milljarða, og RIKS30, að hámarki 6 milljarða.

Í febrúar eru 37 milljarðar á gjalddaga í flokknum RIKB 17 0206. Flokkar ríkisvíxla eru á gjalddaga fyrir um 19 milljarða. Uppgreiðsla á svokölluðu Seðlabankabréfi, þ.e. láni sem ríkissjóð- ur gaf út til að endurfjármagna Seðlabanka Íslands, verður 44 milljarðar á árinu. Gert er ráð fyrir því að greiða niður flokkinn RIKH 18 1009 um 81 milljarð með því að ráðstafa tekjum vegna stöðugleikaframlaga föllnu bankanna. Aðrar afborganir nema 4 milljörðum króna. Þar af er 2 milljarða króna afborgun af skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði vegna kaupa á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun. Restin er vegna afborgana á yfirteknum ríkisábyrgðum vegna falls bankanna og annarra lána.

Meira svigrúm til að ráðstafa fjármunum

„Það verður haldið áfram að greiða niður skuldir ríkissjóðs á árinu,“ segir Björgvin Sighvatsson, forstöðumaður Lánamála ríkisins. „Hreina innlenda lánsfjárþörfin jafngildir ríkisskuldum sem við ætlum að greiða niður umfram nýjar lántökur á yfirstandandi ári. Stefnt verður að því að greiða áfram niður ómarkaðshæfar skuldir, t.d. svokallað Seðlabankabréf ásamt öðrum skuldum ríkissjóðs á þessu ári. Við sjáum að minni eftirspurn ríkissjóðs eftir lánsfé ásamt lækkandi verðbólgu hefur lækkað vexti á markaði og bætt lánakjör ríkissjóðs. Lægri vextir þýða að meira svigrúm er til að ráðstafa fjármunum sem færu annars í vaxtagjöld í annað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .