Fjárfestarnir sem voru fyrstir til að kaupa hlutabréf í Berkshire Hathaway, fyrirtæki sérvitringsins og trilljónamæringsins Warren Buffett, hafa séð hlut sinn margþúsundfaldast er árin líða. Nú eru sumir hverjir margmilljónamæringar, og vita varla hvað gera skal við aurinn.

Ed Prendeville átti leið gegnum Omaha árið 1981 þegar hann skyndilega mundi að Warren Buffett, fjárfestir sem hann hafði heyrt um í háskólanum, byggi í grenndinni. Hann nurlaði sér fyrir hlutabréfum í Berkshire og keypti nokkur slík fyrir 1300 bandaríkjadali eða rétt rúmlega 162.500 krónur. Í dag er hver og einn hlutur á rétt rúma 200.000 bandaríkjadali - 25 milljónir króna á hlut. Ekki amaleg fjárfesting.

Forty-dollar Frank, eins og hann kallar sig stundum, keypti 200 hluti í Berkshire á 40 bandaríkjadali hvern árið 1976. Seinna seldi hann hlut sinn, en eftir að hafa fylgst með fullur angistar er gengi bréfanna hækkaði stanslaust og nánast með veldishraða ákvað hann að kaupa sér aftur hlut og á miklu hærra verði. Árið 1995 keypti Frank sér hús við Tahoe-vatn í Bandaríkjunum - og hann minnist þess þegar fjölskyldan hópknúsaðist úti á pallinum og sagði einróma: „Takk, Warren!"

Gefa miklar fjárhæðir til góðgerðarmála

Þessir fyrstu fjárfestar hafa notað peningana sem Frúin í Hathaway gaf þeim til að gera allt milli himins og jarðar - jafnvel já, nei, svart og hvítt. Peningarnir hafa farið til menningarsetra, læknisfræðirannsókna, háskóla og góðgerðastofnana.

Buffett sjálfur hefur talað um að gefa persónuleg auðæfi sín nánast í heild sinni til góðgerðarmála, en þau eru í kringum 62 milljarðar dala - einhverjar 7.9 billjónir eða 7.874 milljarðar króna. Warren keyrir um á gömlum jeppa, hefur búið í sama húsinu síðan 1958 sem hann keypti á fjórar milljónir króna, og borðar McDonalds oft í morgunmat.