Fjárfesting vegna framkvæmda þeirra sem Lífland er að ráðast í uppi á Grundartanga mun nema á milli 1.200 og 1.300 milljónum króna. Að sögn Bergþóru Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Líflands, var ákveðið að byggja verksmiðjuna vel við vöxt þar sem ekki munar miklu í framkvæmdakostnaði þó hún sé heldur stærri en þörf er fyrir núna.

Í verksmiðjunni verður unnt að framleiða 30.000 tonn af fóðri á ári miðað að hún sé mönnuð með einni vakt. Auðvelt er að auka framleiðsluna upp í 60.000 tonn með því að bæta við annarri vakt. ,,Það var einfaldlega ekkert ódýrara að hafa hana minni,“ sagði Bergþóra.

Mikil breyting felst hins vegar í því að með verksmiðjunni verða reistir geymsluturnar sem gerir kleift að geyma um 7.000 til 8.000 tonn af hráefnum. Bergþóra sagði að þessar birgðageymslur bættu úr skorti á geymslurými fyrir hráefni. ,,Við telum okkur vera að auka matvælaöryggi þjóðarinnar til mikilla muna með þessu,“ sagði Bergþóra en hún benti á að þegar hrunið var síðasta haust kom berlega í ljós að  mjög  takmarkað geymslurými var í landinu fyrir hráefni til fóðurgerðar og hveitiframleiðslu. Einnig benti Bergþóra á að meðhöndlun við fóðurframleiðsluna myndi batna til mikilla muna sem  minnkar verulega hættu á krossmengum með sjúkdómsvaldandi örverum. Þetta er ný og hagkvæm verksmiðja sem ásamt öðru er nauðsynleg til þess að auka samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar

Gert er ráð fyrir að fimm manns starfi í verksmiðjunni en auk þess verða aðrir fimm fluttir til starfa frá athafnasvæði félagsins í bænum.

Lífland er firmaheiti á því sem áður var Mjólkurfélag Reykjavíkur. Félagið er  að mestu í eigu  þeirra Þóris Haraldssonar og Kristins Björnssonar.