Hluthafahópur undir forystu Hjalta Baldurssonar hefur keypt 40% hlut í móðurfélagi Heimkaupa, Wedo ehf., en samhliða hefur hlutafé þess verið aukið um 1,3 milljarða. Núverandi hluthafar hafa út janúarmánuð næstkomandi til að ákveða hvort þeir taki þátt í hlutafjáraukningunni.

Tilgangurinn er sagður sá að styrkja áframhaldandi vöxt félagsins, sem velti um 1,3 milljörðum í fyrra og helmingaði tap sitt úr 340 milljónum í 180 milli ára, og viðbúið er að afkoman verði jafnvel jákvæð í ár. Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri félagsins, sagði í samtali við Frjálsa verslun á dögunum að heimsfaraldurinn hefði ýtt netverslun hér á landi fram um þrjú ár.

Fyrir var stærsti eigandi Wedo – sem auk Heimkaupa rekur Hópkaup og Bland.is – Skeljungur með þriðjungshlut, sem félagið keypti árið 2017 á 280 milljónir króna.