Í nýútkominni skýrslu Vinnumálastofnunar um mannaflaþörf kemur fram að gera má ráð fyrir að gefa þurfi út milli 1.300 og 1.800 atvinnuleyfi næstu 3 ár vegna þeirra framkvæmda sem þegar eru hafnar við uppbyggingu virkjana og stóriðju, flest strax á næsta ári. Bygging álvers á Reyðarfirði og tengdar framkvæmdir eru þar fyrirferðarmestar, ástamt stækkun álvers Norðuráls, bygging virkjana á Hellisheiði og á Reykjanesi og bygging Kárahnjúkavirkjunar og tengdra framkvæmda.

Mest þörf verður fyrir iðnaðarmenn, eða nálægt 1000 manns á þessu þriggja ára tímabili, og er ekki gert ráð fyrir að náist að manna það innanlands nema að litlu leyti. Á næsta ári og framan af árinu 2006 verður þörf fyrir ríflega 600 almenna verkamenn og er gert ráð fyrir að ríflega 35% þess hóps verði Íslendingar.

Unnið hefur verið að því að móta það ferli sem fylgt verður við ráðningu starfsmanna erlendis frá í samvinnu við forsvarsmenn Bechtel/Fjarðaáls. Hefur starfsmaður við útgáfu atvinnuleyfa hjá Vinnumálastofnun, Eures-ráðgjafar hjá EES-vinnumiðlun á Íslandi og starfsfólk vinnumiðlunar Austurlands unnið að því verki, ásamt EURES-ráðgjöfum víða um Evrópu.