Hafnarfjarðarbær auglýsti fyrir skömmu lausar til umsóknar 60 lóðir í 4. áfanga Valla. Umsóknarfresturinn rann út í gær og var mikill áhugi fyrir lóðunum. Um var að ræða 60 lóðir fyrir einbýlis- og raðhús og sóttu 1.309 um lóðirnar. 46 lóðum verður úthlutað til einstaklinga en 1.151 umsókn barst um þær lóðir, 25 manns um hverja lóð. 5 lóðareiningum verður úthlutað til lögaðila en 158 verktakar skiluðu inn umsóknum eða nær 32 verktakar um hverja einingu.

Lóðunum verður úthlutað samkvæmt reglum sem samþykktar voru í bæjarstjórn árið 2002. Reglurnar má finna á www.hafnarfjordur.is/lodir. Mikil fólksfjölgun hefur verið í Hafnarfirði undanfarin ár. Í dag búa í Hafnarfirði 22.065 manns og er reiknað með að á árinu 2005 fjölgi bæjarbúum um 3- 4 %.

Á síðast ári var hafin bygging á 830 íbúðum og eru flestar þeirra á Völlum en einnig hefur verið úthlutað á Norðurbakkanum, Rafhareitnum og á Langeyrarmölum. Á þessu ári verður hafin bygging á 790 íbúðum, þar af 425 íbúðum í 5. áfanga Valla sem koma til úthlutunar nú í haust.

Vellir 4. áfangi er um 7,9 ha að stærð. Svæðið sem er nýbyggingarsvæði sunnan við 2. áfanga Valla afmarkast til norðurs af 2. áfanga Valla, til austurs af Grísanesinu, til suðurs og vesturs af óbyggðu svæði.