*

miðvikudagur, 27. janúar 2021
Innlent 4. júní 2020 15:00

1.323 sagt upp í 23 hópuppsögnum

Stærsta einstaka hópuppsögnin var frá Bláa lóninu, 401 sagt upp þar.

Ritstjórn
Bláa lónið sagði upp 401 starfsmanni í maímánuði.

Vinnumálastofnun barst 23 tilkynningar um hópuppsagnir í maí þar sem 1.323 starfsmönnum var sagt upp. Í mars og apríl voru yfir 80 fyrirtæki sem sögðu upp nærri 5.900 manns. Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Stærsta einstaka hópuppsögnin er frá Bláa lóninu þar sem 401 var sagt upp, því næst hjá Flugleiðahótel þar sem 162 var sagt upp, Íslandshótel sagði upp 159 og Isavia 100 manns. Isavia bauð öllum endurráðningu á öðrum kjörum.

Flestar uppsagnir í maí voru úr ferðatengdri starfsemi eða 10, þar sem sagt var upp 720 manns. 4 uppsagnir voru úr gistiþjónustu þar sem 400 var sagt upp síðan var ein uppsögn úr þjónustustarfsemi, þar sem 53 manns var sagt upp. Nánari sundurliðun er hægt að sjá á vef Vinnumálastofnunar.

Uppsagnarfrestur þeirra sem sagt er upp í þessum hópuppsögnum er í flestum tilvikum þrír mánuðir. Nokkrir missa vinnuna í júní og júlí.