Andvirði nærri 1 milljarðs Bandaríkjadala, eða sem samsvarar nærri 133 milljörðum íslenskra króna, í Bitcoin sem talin eru tengjast Silk Road svartamarkaðnum hafa verið færð til milli rafrænna veskja.

Bitcoin hefur hækkað um 91% síðasta árið, samhliða því að fyrirtæki eins og PayPal og Facebook hafa sýnt rafmyntum áhuga, en það hefur einnig verið undir meira eftirliti en áður vegna mögulegrar nýtingar þeirra til peningaþvættis.

Silkiveginum, eins og nafn svartamarkaðarins útleggst á íslensku, var lokað af bandarískum yfirvöldum árið 2013 þegar þeir náðu stofnanda hans, Ross Ulbricth sem var í kjölfarið dæmdur í ævilangt fangelsi.

Síðan alræmda var falin á svokölluðu myrkraneti, sem ekki kemur upp með hefðbundnum leitarvélum á netinu, og þar gengu fíkniefni, vopn og jafnvel ýmis konar myrkraverkaþjónusta, kaupum og sölum.

Millifærsla úr fangelsinu?

Spurningin er bara hvort Ulbricth hafi tekist að færa féð til sjálfur úr fangelsinu, eða hvort hökkurum hafi tekist að komast yfir aðgangsorðið sem þurfti til. Dulkóðað skjal hafi nefnilega gengið manna á milli sem sagt er innihalda lykilorðið að sjóðnum.

Greiningarfyrirtækið Elliptic sem fylgist með tilfæringum illa fengis fés með rafmyntum, tóku eftir því í gær að millifærsla var á sjóði sem talið er að eigi uppruna sinn frá síðunni.

Um er að ræða fjórða stærsta sjóðinn, eða veskið eins og það heitir, af Bitcoin sem eru til staðar á einum stað, en í honum voru 69.369 bitcoin, sem eru andvirði um 950 milljóna dala, eða 132,8 milljarða íslenskra króna.

„Hreyfingin á þessum bitcoin ... gæti þýtt að Ulbrict, eða söluaðili á Silkiveginum hafi flutt féð til,“ hefur CNBC eftir Tom Robinson meðstofnanda Elliptic. „Hins vegar sýnist mér ólíklegt að Ulbricht hafi getað millifært bitcoin úr fangelsinu [...] Hins vegar gæti dulkóðaða skjalið hafa verið raunverulegt, og lykilorðið því fundist - sem hafi gert viðkomandi kleift að millifæra féð.“

Robinson segir að þótt stjórnvöldum hafi, þar á meðal með hjálp íslenskra lögregluyfirvalda eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma , tekist að leggja hald á 174 þúsund bitcoain frá Ulbrict, þá námu tekjur af síðunni 440 þúsund Bitcoin til viðbótar.

„Það hafa alltaf verið grunur um að afrakstur Silkivegarins geti enn verið í umferð,“ segir Robinson.