Heildartekjur árið 2013 af sölu hreindýraveiðileyfa voru rúmar 133 milljónir króna ásamt staðfestingargjaldi þegar veiðileyfi er ekki greitt að fullu. Þetta kemur fram í svari umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur um tekjur af sölu hreindýraveiðileyfa.

Í svarinu kemur einnig fram að tekjurnar hafi skipst þannig að landeigendur fengu 106.842.000 kr., Umhverfisstofnun 20.351.000 kr. og Náttúrustofa Austurlands 8.514.000 kr.

Kostnaður Umhverfisstofnunar við stjórn og eftirlit með hreindýraveiðum árið 2013 var 19.199.000 kr. Samkvæmt ársreikningi Náttúrustofu Austurlands fyrir árið 2013 nam kostnaður við vöktun og rannsóknir á hreindýrum 19.804.961 kr.

Þá kemur fram í svari ráðherrans að viðtakendur arðs hafi verið 962. Einstaklingar hafi fengið greiddar 79.966.000 kr. og lögaðilar, sveitarfélög og ríki fengu samtals 26.876.000 kr.