*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 7. maí 2018 09:25

13,4 milljarða vöruskiptahalli í apríl

Vöruinnflutningur jókst um 19% í apríl milli ára og nam 9,7 milljörðum króna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vöruútflutningur nam 48 milljörðum króna og en verðmæti vöruinnflutnings nam 61,4 milljörðum króna í apríl 2018 samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Hagstofu Íslands. Vöruviðskiptin í apríl, reiknuð á fob verðmæti, voru óhagstæð um 13,4 milljarða króna.

Í apríl 2018 var verðmæti vöruútflutnings 6,7 milljörðum króna hærra en í apríl 2017 eða 16% á gengi hvors árs. Hækkun var í öllum flokkum milli ára en mestu munar um sjávarafurðir og iðnaðarvörur.

Verðmæti vöruinnflutnings í apríl var 9,7 milljörðum króna hærra en í apríl 2017 eða 19% á gengi hvors árs. Hagstofan segir að þessi munur milli tímabila skýrist bæði af innflutningi á skipum og flugvélum og innflutningi á eldsneyti. Tölurnar eru bráðabirgðatölur og kunna því að taka breytingum eftir endurskoðun Hagstofunnar í lok mánaðarins.