*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 28. apríl 2021 09:49

1.340 milljarðar króna í erfðafjárskatt

Fjölskylda fyrrum stjórnarformanns Samsung þarf að greiða meira en helming úr dánarbúinu í erfðafjárskatt.

Ritstjórn
Lee Kun-hee
epa

Fjölskylda Lee Kun-hee, fyrrum stjórnarformanns Samsung Electronics sem lést í október, þarf að greiða allt að 12 billjónir suður-kóreska wona í erfðafjárskatt. Það samsvarar um 1.340 milljörðum króna. BBC segir frá

Suður-Kórea er með næst hæsta erfðafjárskatt í heimi eða um 50%. Í tilviki Lee fjölskyldunnar gæti hlutfallið verið enn hærra þar sem aukagjöld eru lögð á hlutabréf ef hinn látni var með ráðandi hlut í fyrirtæki. 

Lee fjölskyldan hyggst gefa forngripi og málverk úr dánarbúinu til Þjóðaminjasafns Suður-Kóreu. Safn Lee innihélt verk frá Pablo Picasso, Paul Gauguin, Claude Monet, Joan Miro og Salvador Dali. Fjölmiðlar í Suður-Kóreu telja að með þessu minnki skattakvöð fjölskyldunnar. 

Sjá einnig: Veðja á arðgreiðslur eftir lát Lee

Ekki er enn ljóst hvort Lee fjölskyldan þurfi að selja hlutabréf í Samsung til að standa undir skattgreiðslunni. Jay Y. Lee, sonur Lee Kun-Hee, er varaformaður Samsung og hefur leitt fyrirtækjasamsteypuna síðustu sex árin eftir faðir hans fékk hjartaáfall. Hann situr nú í fangelsi vegna mútuhneykslis sem Park Geun-hye, fyrrum forseti Suður-Kóreu, var meðal annars flækt í.  

Stikkorð: Samsung Jay Y. Lee Lee Kun-hee